Ég á við þann vanda að stríða að eiga erfitt með að henda hlutum, hvort sem það eru gamlir bíómiðar, símanúmer eða ritgerðir. Það hefur aðeins vantað í síuna hjá mér og þessir „minjagripir“ eru auðvitað yfirleitt ekkert nema drasl. Fékk að kenna á því þarsíðustu helgi eftir að síminn minn marineraðist óvænt í pepsi-max um daginn og ég prófaði í símaleysis neyð minni fjóra gamla síma sem ég fann heima hjá mér – enginn af þeim virkaði. Öllu verra voru öll gömlu símanúmerin sem ég hef ekki hent út úr símanum síðastliðin 10 ár. Síminn hefur nefnilega eftir baðið verið haldinn illum öndum og takkarnir á lyklaborðinu virka ekki rétt. Afturábak þýðir áfram og þar fram eftir götunum, nema hvað þetta er frekar breytilegt. Ég reyndi alla nóttina að fá símann til að virka en ekkert gekk og síminn gerði lítið annað en að fletta upp í símaskránni sama hvaða takka ég notaði. Nema hvað þegar ég reyndi svo að komast út úr skjámyndinni hringdi síminn alltaf í það númer sem hann hafði stöðvað á. Daginn eftir komst ég að því að um kl. 4:44 um nóttina hringdi ég meðal annars í alla sem byrja á K í símaskránni, töluvert af fólki sem byrjar á A, nokkur Ó, eitt Æ ofl. Þetta hefði verið allt í lagi ef þetta væri bara fólk sem ég þekkti en nei nei. Ég hringdi í hitt og þetta fólk sem ég myndi ekki heilsa úti á götu, þar á meðal vinnufélaga sem ég hef ekki séð fjölda ára, útlendinga sem við stelpurnar hittum á interaili 2001, konu sem stjórnaði einu sinni gæsaveislu sem ég fór í og síðast en ekki síst, foreldra fyrrverandi kærasta. Ég held reyndar að mér hafði tekist að stöðva megnið af símtölunum á endanum áður en það hringdi (oft) á hinum endanum. En ef ég hringdi í þig og skellti á biðst ég afsökunar. Það er ennþá eitthvað símavesen á mér, fann loksins síma hjá ma og pa sem virkaði. Sá verður reyndar rafhlöðulaus fyrirvaralaust og er ekki með nein símanúmer vistuð. Kannski bara fínt að byrja upp á nýtt, enda ekkert kappsmál að safna símanúmerum eins og glansmyndum í denn. Enda sagðist einn kunningi minn hafa uppgötvað fyrir nokkrum árum að hann væri með fullan síma af símanúmerum – en engan til að hringja í.
3 ummæli:
hahahaha :-)
Frábært! Hringdirðu í Kristof? Það væri nú gaman að heyra í þessum gaurum aftur...7 árum síðar! Vá. Og foreldrar gamals kærasta....úff úff úff... Er þá nýr sími efst á jólaóskalistanum?
Sakna þín ógeðslega mikið, og hlakka svoooooo mikið til að sjá þig um jólin.
knús
Freyja
ertu bara hætt að blogga sæta?
Þ.
Skrifa ummæli