Ég get verið gúgl-óð á köflum og gúgla allt og alla enda afar forvitin. Þetta hefur kosti og galla og ég hef heldur farið að hemja mig í seinni tíð enda hef ég komist að því að það er hægt að fá Of Miklar Upplýsingar um fólk á netinu.
Ég hitti til að mynda gamla skólasystur mína í sundi um daginn þar sem hún sagði mér hvað á daga hennar hefði drifið síðan við hittumst síðast. Ég virtist mjög áhugasöm og spurði hvað barnið hennar hét og hvað það væri gamalt og þetta venjulega. Ekki gat ég sagt henni að ég væri búin að fletta þessu öllu upp á netinu fyrir löngu í gömlu-skólafélaga-gúgl-æði og var búin að lesa fæðingarsöguna og skoða myndir úr skírninni.
Að sama skapi fletti ég einu sinni upp stelpu sem vinur minn var að deita og sagði honum gjörsamlega allt um hana - fyrir fyrsta deitið. Hann var ekki ánægður með að ég skyldi hafa aflétt dulúðinni og missti eiginlega áhugann (nú reyni ég að takmarka deit-gúgl við Íslendingabók, svona bara til að tékka hvort um náskyldmenni sé að ræða).
Stundum kemst upp um gúglið eins og um daginn þegar ég var að spjalla við nýjan vinnufélaga minn og minntist á fyndna mynd sem ég hafði séð af honum á facebook. Hann vissi hvaða mynd ég var að tala um - en sagði strax að þessa mynd væri nú ekki að finna þar. Varstu að gúgla mig? ,spurði hann og ég játaði skömmustulega og romsaði út úr mér að ég væri ekki kreisí stalker heldur bara almennt forvitin um fólk sem ég kynnist.
En já, ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér eru samræður sem ég átti síðustu helgi þegar ég rakst á skemmtilega stelpu sem ég hafði ekki hitt lengi.
Nei hæ, gaman að sjá þig sögðum við hvor við aðra. Ég ákvað bara að vera hreinskilin og spurði hana hvort hún hefði ekki verið að gifta sig í fyrra, ég hefði nefnilega séð brúðkaupsmyndirnar á facebook (sá semsagt myndir sem sameiginlegir vinir okkar höfðu sett inn). Óskaði henni til hamingju þótt seint væri og hún þakkaði fyrir sig. Síðan kom vandræðaleg þögn þar sem hún var sjálfsagt að velta fyrir sér hvort hún gæti ekki komið með eitthvað á móti, hvort hún hefðiekki átt að reka augun í beibí/brúðkaups/innflutnings/útskriftar etc. myndir af mér á netinu. Loksins kveikti hún á perunni, brosti til mín og sagði Heyrðu, varst þú ekki að láta taka úr þér endajaxla í fyrra? Ég nefnilega gúglaði "endajaxlataka" og bloggið þitt kom upp...
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
2 ummæli:
mér finnst bloggið þitt skemmtilegt :D
Takk sömuleiðis sæta :D
Skrifa ummæli