Eftir langan vetur sem hefur á köflum valdið þyngslum fyrir brjósti eins og þykkt teppi sem maður nær ekki að lyfta almennilega af sér, virðist vera að rofa til í sálartetrinu. Ekki bara mínu, heldur virðist sem sólskinið og Júróvisjón og vorið hafi blásið mönnum nýtt líf í brjóst og það er talað um sumarfrí og útilegur og garðhúsgögn á kaffistofunum. Grillilmurinn liggur í loftinu og andarungarnir eru komnir á stjá. Loftmyndir af landinu sýna litla hvíta depla (stúdentshúfurnar) og stóra bláa hringi (trampólínin).
Helgin hefði ekki getað verið betri. Margar sundferðir, þar af ein þar sem ég fór með litlu systur í rennibrautina við mikinn fögnuð (okkar, ekki viðstaddra sem horfðu undarlega á okkur - hún er 25 ára og engin börn voru með í för). Vinkonuspjall, barnaknús og tónleikar. Dásamlegur brunch á Nítjándu í Turninum með fjölskyldunni. Menningarferð á Gullöldina í Grafarvoginum þar sem var sungið hástöfum með Bonnie Tyler og horft á körfubolta með bjór í frystu glasi.
Lífið er unaðslegt og allt sumarið er framundan. Góðar stundir.
(Eftir þetta bjartsýnisblogg bjó ég mér til sumarsmoothie með banana, vínberjum, blönduðum ávöxtum og ananasbitum úr frystinum...namminamm...hrasaði svo í stigaganginum, missti brúsann og herlegheitin gusuðust út um allt. En þetta verður samt góður dagur!)
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
4 ummæli:
oohh...hvað þetta hljómaði allt yndislega (nema hrösunin auðvitað!)
kv,
Hildur
fall er fararheill segi ég! þetta verður frábært sumar hjá þér sólrún mín, ég finn það á mér :)
Jei. Sumar :D
Spurning um að taka það fram að það hafi ekki verið örtröð í rennibrautina..hehe ;)
Skrifa ummæli