26. ágú. 2009

Draugur í Bónus

Ætla að hoppa aðeins yfir sumarfrísblogg og halda áfram í rauðu seríu stemningunni.

Fyrsta árið mitt í menntaskóla var ég ógurlega hrifin af strák sem var með mér í leikfélaginu. Hann var brúneygður með húðflúr, gekk í hvítum buxum og átti bíl og ég kiknaði alltaf pínulítið í hnjánum þegar ég sá hann. Við hittumst af og til í einhverja mánuði en það var aldrei neitt alvarlegt. Hef hugsað til hans öðru hvoru en hann er einn af þessum fortíðardraugum sem ég rekst aldrei á, þrátt fyrir að við búum í sama póstnúmeri.

Þessi drengur dúkkaði skyndilega upp í mjólkurkælinum í Bónus í dag ásamt voða sæta barninu sínu, konan hans reyndar ekki með honum. Jafn sætur og fyrir þrettán árum síðan. Við heilsuðumst innilega og ég hugsaði með mér hvað ég væri ótrúlega fegin að vera í pilsi og með gloss og ekkert vandræðalegt í körfunni enda nýkomin úr grænmetisdeildinni. Hefði einhvern veginn fundist verra að vera með snakkpoka og 1944. Mér fannst voðalega gaman að sjá hann og spjölluðum aðeins í þessum kurteisa "hvað er að frétta af þér" dúr eins og venja er.

Nema hvað að svo fer hann að spyrja hvort ég eigi ekki börn og mann, spyr meira að segja ítrekað og ég neita því og hann svona spyr hvernig standi nú á því. Ég gæti reyndar verið að búa þetta síðasta til en mér fannst hann horfa svo spyrjandi á mig að mér fannst ég einhvern veginn þurfa að afsaka mig, ef ske kynni að hann héldi að ég væri svo gölluð að það vildi mig enginn. Og þá hófst alveg skelfilegt samtal þar sem sá hluti heilans sem var enn að starfa eðlilega öskraði á mig að halda kjafti en ég hélt samt áfram að sökkva dýpra og tala og tala og tala...


Já sko ég var þú veist í sambandi mjög lengi með eldri manni... (hér kom löng útlisting á síðasta sambandi mínu og skynsemisröddin reyndi að tjá mér að þetta kæmi manninum ekkert við) ... og já svo hættum við saman og ég bara hef ekki kynnst neinum almennilegum síðan. Þarna hefði verið gott tækifæri til að láta staðar numið. En ég hlustaði ekki á skynsemina þar ég var of upptekin af því að hugsa um hvað það væri langt síðan að ég hefði átt kærasta og hvort að það væri rétt sem þær segja í Beðmál í borginni að það tæki helming þess tíma sem samband stendur yfir að jafna sig á því).

Jahá sagði hann og horfði undarlega á mig, sem ég skildi þannig að þetta hefði ekki verið sannfærandi útskýring á kærastaleysinu.

Eða sko ég hitti alveg almennilega menn auðvitað, þeir eru bara oftast giftir (þarna var skynsemisröddin orðin mjög hávær - HÆTTU AÐ TALA!)

Aha sagði hann og mér datt í hug og að hann héldi kannski að ég væri að reyna við sig þar sem hann er jú giftur. Fannst ég þurfa að útskýra að ég væri ekki á höttunum eftir mönnum annarra kvenna og væri ekkert sérstaklega desperat.

En sko það er samt alveg margt í gangi, ég meina ég fékk ástarjátningu í dag! (skynsemisröddin var þarna farin að kjökra af örvæntingu).

Aumingja maðurinn vissi greinilega ekki hvort hann ætti að hlæja eða taka til fótanna og þá fyrir eitthvað kraftaverk náði óp skynseminnar í gegn og ég sagði að mér væri orðið kalt (sem var augljóslega ekki satt, ég var í úlpu en ekki hann) og þyrfti að fara.

Ég þarf klárlega að finna mér nýja Bónusverslun.

8 ummæli:

Blaðran sagði...

Hahahahhahaha. Kannast þokkalega við þetta, maður heldur áfram að buna útúr sér öllu og engu og talar svo hátt að það yfirgnæfir litlu röddina í hausnum sem kennd er við skynsemi. Og svo mórall yfir öllu saman. Nú muntu örugglega rekast á gaurinn vikulega, næst á djamminu ;-)

Kristján sagði...

Þú ert svo fyndin Sólrún.

Svo er það nú alltaf þannig að maður er meira með fókusinn á sjálfum sér en viðmælanda í svona samræðum (góði sálfræðingurinn...)

Kristján sagði...

Þetta gæti misskilist, ég var sem sagt að meina að ég væri nú góði sálfræðingurinn.

Kristján sagði...

Ekki það að þú sért ekki góður sálfræðingur!!

Kristján sagði...

Best að hætta.

Nafnlaus sagði...

Hlusta á röddina Jóhanna!

Ég kannaðist svo vel við þetta að eftir hálfan pistil lokaði ég fartölvunni, eldaði smá kvöldmat og settist svo aftur til að klára. Geri það sama með sjónvarpsþætti og bækur þegar ég fæ svona kjánahroll yfir aðstæðum sem ég þekki ;)

Gott að fá þig aftur í bloggheiminn Sólrún mín.

kv,
Hildur

Þóra Marteins sagði...

hahahaha :)

Frá hverjum fékkstu samt ástarjátningu?

Nafnlaus sagði...

V-A-N-D-R-Æ-Ð-A-L-E-G-T

En viðurstyggilega fyndið ;-)

Þú ert yndi Sólrún!

kv/Soffía