21. apr. 2009

Endurfundir og erótíski nuddarinn

Um síðustu helgi var haldið reunion í mínum gamla unglingaskóla sem var á sínum tíma stærstur sinnar tegundar á landinu. Það er eiginlega undurfurðulegt að fara á svona endurfundi. Gaman að hitta skólafélagana, rifja upp gamlar sögur og heyra nýjar. Samt hálfpartinn eins og að vera kominn 15 ár aftur í tímann á skólaball, nema hvað allir unglingarnir eru fastir í ókunnugum fullorðnum líkömum. Allir svona passlega kjánalegir og vandræðalegir. Erfitt að ákveða hvort ætti að kinka kolli eða heilsast innilega.

Eins og í uppskrift að bandarískri unglingamynd hertóku aðalpæjurnar dansgólfið og nördarnir fengu uppreisn æru. Sumir höfðu ekkert breyst og kvörtuðu yfir að vera ennþá spurðir um skilríki, aðrir orðnir miðaldra fyrir aldur fram. Víða heyrðist hvíslað Hver er þetta? Ég náði með aðstoð að komast að því hverjir allir væru nema einn dularfullur svarthærður strákur í leðurjakka sem ég kannaðist bara ekki neitt við. Var búin að ganga á milli og reyna að hlera en enginn vissi hver þetta var. Komst að lokum að því að hann var bara alls ekkert í skólanum heldur var að sækja einhvern...

Svo var slúðrað - hverjir eru að vinna hvar, hverjir eru giftir, fráskildir, frægir, orðnir sköllóttir, búnir að fara í brjóstastækkun, óléttir, komnir með börn, komnir út úr skápnum og þaðan eftir götunum. Ég lenti í töluvert mikið af trúnóum þar sem fólk sagði mér ótrúlegustu hluti og fékk nokkrum sinnum að heyra Þetta hef ég engum sagt en... Hef reyndar mjög gaman af því að tala við fólk sem ég þekki um leyndarmálin í lífinu og tilverunni en hef takmarkaða þolinmæði fyrir að fara á trúnó með ókunnugu fólki utan vinnunnar. Svo finnst mér Hvað gerirðu afskaplega leiðinleg opnunarspurning, man eftir því hvað ég þoldi ekki að vera spurð að þessu þegar ég var atvinnulaus og ekki á þeim stað í lífinu sem ég vildi vera á.

Ég ákvað því að fíflast aðeins og segja við þá sem spurðu og sem ég þekkti lítið að ég starfaði sem erótískur nuddari. Sagði þetta ábyggilega við svona 10 manns, það var alveg ótrúlegt hvað fólk spurði lítið út í það og var fljótt að skipta um umræðuefni. Tveir spurðu reyndar í lágum hljóðum hvort það væri hægt að panta tíma. Bara einn sem áttaði sig á að þetta væri grín og sagðist sjálfur vera ljónatemjari. Tek það fram að ég leiðrétti þetta við viðmælendur að lokum :) Allt fór þetta samt vel fram þótt eitthvað hefði verið um uppgjör og tár eins og fylgir svona samkomum, þótt ekki hafi ég lent í því sjálf. Verður áhugavert að hitta sama fólk eftir eins og 10 ár eða svo...

3 ummæli:

Gummi sagði...

Hvar get ég pantað tíma?

Nafnlaus sagði...

Ó já... Þessi endalausu trúnó-samtöl við ókunnuga... Leigubílstjórarnir finnst mér verstir (ég meina, ég er að borga þeim!). Get samt einhvern vegin ekki sagt ósatt þegar ég er spurð!

Magnea.

Nafnlaus sagði...

Akkúrat. Og áhugalaust "ahahammm..." og "mmmm..." er bara eins og olía á eldinn. Well, samt gaman að vera sáli :)

Guðrún J.