6. apr. 2009

Vonbiðill og veislur, kristallar og knús

Held að fyrsta apríl "gabbið" mitt um norska lækninn hljóti bara að hafa verið fyrirboði. Að minnsta kosti fékk ég tölvupóst í dag frá afar myndarlegum, hávöxnum, ljóshærðum, skandínavískum doktor sem ég hef ekki hitt eða talað við í fjölda ára. Hann verður á Íslandi um páskana vegna vinnu og stakk upp á að við hittumst í drykk. Alltaf gaman að fá óvænta, skemmtilega tölvupósta :)

Annars leið helgin hratt, byrjaði á tónleikum á Nasa þar sem færeyski söngfuglinn þandi sína ótrúlegu rödd, þvílíkt vald og tækni. Hef ekkert hlustað á hana að ráði en líst vel á nýju plötuna sem hún var að kynna. Laugardagurinn hófst á ofur-flottri fermingarveislu á Hótel Borg og endaði í mögnuðu þrítugsafmæli sem skartaði meðal annars töframanni, trúbador og casinohorni. Sunnudagurinn var Kolaport og kaffihús með litlu systur en við lentum svo í skemmtilegri uppákomu á Austurvelli á leiðinni heim. Þar rákumst við á dásamlegan tvífara Línu langsokks á hjóli sem gaf okkur hvorri sinn kristallinn til "hreinsunar". Minn hefur reyndar ekki ennþá þrifið heima hjá mér sama hvað ég nöldra.

En já, Barnið og co komu semsagt til landsins og ég reyni að nota hvert tækifæri til að knúsa liðið, enda sé ég þau allt of sjaldan. Var svo þreytt í dag að fór í bað og svo beint í náttfötin fyrir kvöldmat. Langaði samt aðeins að hitta þau þannig að ég fór í heimsókn til þeirra (heim til ma og pa) og vann þar keppnina um hver sofnaði síðastur yfir myndinni Golden Compass. Var letidýr og fór semsagt í heimsókn á náttfötunum, sem eru græn silkináttföt nokkrum númerum of stór. Pabbi vildi ekki móðga mig svo spurði varlega hvort ég væri í einhverjum nýjum fötum. Sýndist hann vera feginn á svipinn þegar ég sagði honum að þetta væru náttföt en ekki nýjasta tískan.

Svo er það bara páskafrí eftir 40 klukkustundir...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ok ég vil fá að heyra um hávaxna, myndarlega, skandinavíska lækna sem vilja drykk með þér! Vonandi fæ ég update á laugardaginn :)

kv,
Hildur

Kristján sagði...

Kristallin nýtist kannski til áruhreinsunar?

Anna Pála sagði...

HAHAHA, sé pabba þinn þvílíkt í anda!! Ég fer sjálf í kallanáttbuxur við hvert mögulegt tækifæri og eyði þeim upp á ca 3 mánuðum, myndi deyja úr gleði ef ég mætti ganga stöðugt í svoleiðis.