Á föstudaginn síðasta ákvað ég að prófa eitthvað nýtt og fara með nokkrum stelpum úr vinnunni í góðgerðarþolfimitíma í World Class Laugum þar sem Páll Óskar átti að þeyta skífum. Ég gerði ráð fyrir að þetta væri smá tjútt og trall fyrir gott málefni og bjóst við að allir myndu dilla mjöðmum í takt og syngja saman Allt fyrir ástina og svo framvegis. Þegar salurinn fylltist síðan af þolfimifólki og -kennurum fóru hins vegar að renna á mig tvær grímur. Palli spilaði techno tónlist og það voru kvikmyndatökumaður og ljósmyndarar í salnum. Great. Ég var mætt í rauða Reykjavíkurmaraþonbolnum mínum sem var nú ansi lítill á mig fyrir og hafði greinilega hlaupið í þvotti. Innan um Nike spandex beiburnar var ég þess vegna eins og kyrktur kettlingur með muffin top. Þarna voru samankomnir kennarar frá öllum heimshornum og tóku 10 mín syrpur hver. Þeir gerðu greinilega ráð fyrir því að þátttakendur væru vanir og kynnu svona þessi helstu spor. Ég hafði ekki farið í eróbikktíma í svona 10 ár, og er þar að auki með afar ósamhæfðar hreyfingar eins og frægt er orðið, svo ég var ekkert sérstaklega fljót að ná sporunum. "Og einn, og tveir, hliðar saman hliðar" ... Fínt hugsaði ég, enda lofaði upphitunin góðu og ég orðin sveitt á fyrstu mínútunum. "Og svo mambó, mambó, hægri snú, krossa yfir, chasse, snúa sér í hring, cha cha cha. Allir með?". Ummm.. NEI! Þetta endaði með því að ég snerist bara í hringi og var alltaf að rekast á fólk, var svo að hlaupa um fram og til baka aftast í salnum til að reyna að forðast myndavélarnar á meðan ég gerði ámátlegar tilraunir til að fylgja sporunum. Svona svolítið eins og Phoebe í Friends í danstímanum, nema hvað hún var að fíla sig aðeins betur en ég.
Skelltum okkur svo í sund á eftir í Laugardalslauginni og prófuðum nýju rennibrautina. Ég fór fyrst og þar sem ég er með mjög lágan adrenalínþröskuld fannst mér þetta alveg svaðalegt og brá brjálæðislega þegar það varð allt svart og öskraði úr mér lungun á leiðinni niður. Nema hvað að þessi rennibrautargöng magna greinilega upp allt hljóð, frétti eftirá að öskrin í mér hefðu bergmálað um alla laugina og fólkið í heitu pottunum stóð upp til að kanna hvað væri eiginlega í gangi. Svo var hópur af fólki hlæjandi þegar ég kom út. En ég lét það ekki á mig fá og skellti mér aftur. Ópin höfðu líka þau áhrif að fullorðna fólkið í lauginni gerði ráð fyrir að þetta væri spennandi og flykktist í rennibrautina. Varð mjög ánægð að sjá það, enda eru rennibrautir ekki bara fyrir börn, fullorðnir hljóta líka að mega leika sér.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
4 ummæli:
*fliss*
Mér finnst þú stórkostleg elsku Sólrún :-*
Sammála síðasta ræðumanni. Það sem ég elska mest við þig er að fæstir myndu viðurkenna svona "upplifun" á vefsíðu heldur halda henni bara fyrir sig :)
Meðan ég man....sást þú auglýstan góðgerðar-eróbiktíma með góðvini okkar úr Jafningarfræðslunni fyrir nokkrum árum? Hef sjaldan hlegið jafn mikið þegar ég sá hann dilla á sér mjöðmunum (bókstaflega!) framan í sjónvarpsmyndavélina :)
kv,
Hildur
Takk stelpur :) Ef við erum að tala um sama góðvininn Hildur þá sá ég ekki auglýsinguna - en hann var einn af kennurunum þarna svo ég sá hann live að dilla mjöðmunum. Hefði hlegið ef ég hefði ekki verið svona upptekin af vandræðaganginum í sjálfri mér.
Og já, ritskoðarinn mætti líklega vera öflugri, úff. En ég hem mig samt sem betur fer að mestu leyti í að blogga um vinnutengd- og deit-fíaskó :) Klæjar samt stundum í puttana að tjá mig um það síðarnefnda en sökum persónuverndar reyni ég að gera það sem minnst nema amk e-r tími sé liðinn frá atburðinum og ég breyti svona helstu einkennum og staðháttum.
Oh boy hvað ég skil þig vel!! Venjulegur svona tími er martröð og ekki bætir ástandið að hafa marga kennara og fokking sjónvarpsmyndavélar! Hefði aldrei látið mig hafa það, ekki einu sinni í góðgerðarskyni :-)
Skrifa ummæli