25. júl. 2003

Þá er "Dularfulli bolurinn" málið loksins upplýst (já ég las Enid Blyton af miklum móð). Ég keypti mér nefnilega bol með kínverskri áletrun í C&A fyrir mörgum árum síðan. Ferlega töff bolur, en enginn vissi hvað stóð á honum. Ég hef alltaf verið hrædd um að það stæði eitthvað ósmekklegt á bolnum enda hafa lengi gengið sögur um kínversk húðflúr sem hafa þýtt eitthvað allt annað en eigandinn átti von á.

Ég hætti að ganga í þessum bol þegar hann minnkaði í þvotti (eða ég stækkaði af áti) en geymdi hann samt í þeirri von að sannleikurinn kæmi í ljós einhvern daginn. Þótt samjarðarbúar mínir séu margir hverjir kínverskumælandi hafa þeir af einhverjum ástæðum ekki verið réttir menn á réttri stund þar sem ég hef verið í bolnum.

Í síðustu Íslandsferð minni í júní datt mér þetta í hug þegar ég var að gramsa í fataskápnum. Flutti bolinn með mér til Bretlands og ætlaði að fá málið á hreint með því að leggja það í hendur Ken litla frá Hong Kong sem býr í næsta herbergi. Hann var hins vegar farinn til L.A. á sjóbretti og kom ekki aftur fyrr en í þessari viku. Í gær réðst ég á hann í eldhúsinu með bolinn og spurði hann um áletrunina.
Hann horfði á mig stórum augum og ég var viss um að þetta væri eitthvað hrikalega móðgandi.
"Dog, dragon, horse" sagði hann og hélt áfram að skera niður grænmeti í stir-fræið sitt. Hundur, dreki, hestur. Þar hafiði það. Boring.
Case closed.

Engin ummæli: