16. júl. 2003

Ég fékk dularfullan tölvupóst í fyrradag. Fyrirsögnin var I spy... frá netfanginu brightonstalker@hotmail.com
Svo var viðhengi með mynd af fólki á ströndinni hjá gömlu bryggjunni og jú jú... neðst í hægra horninu vorum við Útlendingurinn að sóla okkur. Þetta var svosem áður en farið var að fækka fötum þannig að mér fannst þetta bara fyndið en vildi komast að því hver hefði sent mér þetta. Útlendingurinn var augljóslega suspect nr. 1 en hann skildi ekkert í þessu, "ég er á myndinni" og "ég á ekki svona góða myndavél" og bla bla sem er alveg rétt. Svo hét myndin líka Solrun og hann kallar mig aldrei Sólrúnu.
Suspect numero dos var Darri litli kennari - við skjótum reglulega hvort á annað og ég var nýbúin að djóka eitthvað í honum. Réðst á hann með hótunum en hann sýndi engin svipbrigði og tókst að sannfæra mig um það að hann vissi ekkert um þetta.
Þá var ég orðin virkilega forvitin. Myndin var með frábæra upplausn - hvern þekki ég sem á svona góða myndavél? Kærasti stelpu sem ég þekki er ljósmyndari og Ken herbergisfélagi minn er með myndavéladellu.
En hvers vegna hefði einhver sem sá mig á ströndinni ekki komið og heilsað upp á mig? Gæti einhver hafa séð myndina hjá einhverjum öðrum? Ég sást ekkert voðalega vel... hversu margir geta séð stelpu aftan frá í bleikum bol og verið viss um að það sé ég? Hver færi að djóka í mér en ekki í útlendingnum? Hver sendir mér póst á cogs emailið? Hver færi að nenna að djóka í mér og búa til spes hotmail addressu í staðinn fyrir að senda mér bara myndina?
Semsagt, ég velti mér upp úr þessu í nokkra klukkutíma. Sagði við Útlendinginn í hádeginu að ég ætlaði aldrei aftur að fara úr að ofan á ströndinni, það gætu leynst pervertar með góðar myndavélar hvar sem er. Renndi yfir lista grunaðra en hann sannfærði mig um það að hver svo sem hefði sent þetta myndi ekki geta þagað yfir því lengi og segði örugglega til sín fljótlega (á þessu stigi var orðið MJÖG svo augljóst hver stalkerinn er, ég hafði ennþá ekki hugmynd).
Eftir hádegi fékk ég næsta bréf. Topless, var fyrirsögnin. Ég fékk nett taugaáfall en opnaði samt viðhengið sem hét The Stalker Revealed. Útlendingurinn með tunguna útúr sér. Ég er svoooo vitlaus. Vinur hans var að sýna honum myndir sem hann hafði tekið á ströndinni (nýbúinn að kaupa sér nýja myndavél) og það vildi svo skemmtilega til að við slysuðumst inn á eina þeirra. Það besta er auðvitað að þegar ég sagðist aldrei ætla að treysta honum aftur benti hann á að hann hefði engu logið - hann sagðist aldrei ekki hafa sent myndina. Nú þarf ég bara að hefna mín...

Engin ummæli: