26. mar. 2007
Þekkirðu...
- Hvaða árgerð ertu?
1980
- Jahá...og í hvaða skóla varstu?
MH
-Hmmm... nú... já ég þekki svo fáa þaðan... en í hvaða grunnskóla?
Hagaskóla
-Já ertu úr Vesturbænum?
Já
-Já frændi vinar míns var einmitt í Hagaskóla, hann er ári eldri en þú. Þekkirðu...
Og svo líður öllum betur þegar það kemur í ljós að umræddur frændi var einmitt í bekk með systur fyrrverandi kærasta vinkonu minnar.
En jæja. Ég er líka svona, það er ekki það. Þjáist af "þekkirðu" heilkenninu á háu stigi. Hins vegar gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta byrjar strax í barnæsku. Átti skemmtilegt samtal við um það bil 7 ára gutta sem heilsaði mér að fyrra bragði þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag.
Gutti: Hæ
Ég: Hæ
Gutti: Hvað heitirðu?
Ég: Ég heiti Sólrún
Gutti: Ég þekki þig ekki. En hvaða konu þekkirðu?
Ég: Ég þekki margar konur
Gutti: En hvaða vinkonu áttu?
Ég: Hvaða vinkonu átt þú?
Gutti: Nei þú fyrst!
Ég: Nei þú fyrst!
Gutti: Allt í lagi. Mín vinkona heitir Sigríður. Hvað heitir þín?
Ég: Mín heitir Aldís (litla systir, fyrsta sem mér datt í hug)
Gutti: Hei, ég þekki hana!
Ætli þetta sé í blóðinu? Eða læra börnin bara það sem þau búa við?
22. mar. 2007
Segðu aaaaaaaa

20. mar. 2007
Úti að aka
Þið vitið. Þegar mann langar bara að leggjast undir feld. Sem er sjaldnast möguleiki í stöðunni á svona dögum.
En jæja. Það var nú eitthvað farið að hýrna yfir mér þegar ég fór á námskeið í kvöld. Klukkan 22 var ég að fara heim, labbandi eins og venjulega, enda stutt að fara. Afþakkaði meira að segja far. Fattaði svo að ég var ekki með vettlinga og húfu eins og vanalega og fannst leiðin heldur löng allt í einu í hálkunni. Það var kalt og ég var þreytt og pirruð, með níðþunga tösku. Var þess vegna hrikalega fegin að sjá loksins í útidyrahurðina. Hélt utan um lyklana í vasanum síðustu metrana og umlaði "alveg að koma, alveg að koma".
Nema hvað þegar ég tek lyklana upp úr vasanum þá sé ég að þetta eru bíllyklarnir sem ég held á. Því ég kom víst á bíl á námskeiðið. Og hafði einmitt geymt húfuna og vettlingana í bílnum.
En eftir "oohhh"-ið þá var bara fínt að fá sér kvöldgöngu.
12. mar. 2007
Hitt og þetta
Frelsarinn sjálfur birtist mér í formi tannlæknis um helgina. Hann ætlar að fjarlægja harðjaxlinn vin minn strax á föstudaginn kemur. Þannig að senn verður komið að kveðjustund. Ætli næsti jaxl við hliðina á eigi nokkuð eftir að sakna litla bró, hugsa að hann verði bara plássinu feginn.
Sá nokkra flissandi útlendinga stilla sér upp fyrir framan búð á Laugaveginum um helgina. Var að velta fyrir mér hvaða uppstilling væri svona spennandi þegar ég áttaði mig á að það var sennilega húsnúmerið sem heillaði. Það var nefnilega skrifað með bókstöfum og stóð skýrt og greininlega LAUGAVEGUR SEX.
9. mar. 2007
Home sweet home
En jæja, ferðasagan. Hún bíður kannski bara betri tíma. Get eiginlega ekki birt myndir á blogginu því brúðurin er með persónuverndarissjú. Sem ég skil svo sem vel. En það var ógó gaman. Og ég datt ekki á leiðinni inn kirkjugólfið. Og ég drakk kampavín í limmó. Og brúðhjónin fóru með okkur á pöbbinn eftir brúðkaupið í uppáklædd. Og New York er æði pæði.