22. mar. 2007

Segðu aaaaaaaa


Þegar verkurinn í tönninni var sem verstur var ég á fullu að gúgla "endajaxlataka" og lesa hryllingssögur á bloggum þjáningarbræðra og -systra. Það gekk hins vegar svo vel að taka minn jaxl að ég verð eiginlega að segja frá því -fyrir alla hina sem eiga eftir að gúgla endajaxlataka. Ég var búin að láta þetta eiga sig í marga, marga mánuði. Var síðan svo heppin að lenda á alveg brilliant tannlækni sem deyfði mig í bak og fyrir og vippaði jaxlinum út á nó tæm. Fann ekki fyrir neinu og var búin á svona korteri - 20 mín. Var aðeins dofin, ekkert bólgin, pínu aum og gat borðað nánast hvað sem er daginn eftir. Tóm hamingja!


Endajaxlinn þjáðist semsagt ekki af aðskilnaðarkvíða - en það gerði ég hins vegar. Tannlæknirinn horfði á mig undrandi þegar ég horfði á jaxlinn á borðinu, svo aumkunarverðan, og kvaddi hann með tregatón og veifaði bless. "Þú mátt alveg eiga hann ef þú vilt" sagði hann, og ég tók gleði mína á ný og fór með jaxlinn heim eins og gullfisk í poka. Setti hann í klór og nú hangir hann bjartur og fagur á gullhálsfesti eins og fínasta skart. Þori reyndar ekki að vera með festina - gæti þótt ógeðfellt. Hlýt að geta logið að fólki að tönnin sé úr plasti.


Ætla að reyna að láta taka úr mér annan jaxl sem fyrst svo ég geti búið til eyrnalokka.

Engin ummæli: