Flestir Íslendingar kannast við "þekkirðu..." heilkennið, að vera ekki í rónni í návist ókunnugra þar til búið er að finna að minnsta kosti einn sameiginlegan kunningja. Erlendis byrjar fólk á því að spyrja hvaðan ég sé og hvernig sé að búa á Íslandi og hvað ég geri og hvað ég hafi lært o.s.frv. Auðvitað gera Íslendingar það líka en fyrst kemur rullan:
- Hvaða árgerð ertu?
1980
- Jahá...og í hvaða skóla varstu?
MH
-Hmmm... nú... já ég þekki svo fáa þaðan... en í hvaða grunnskóla?
Hagaskóla
-Já ertu úr Vesturbænum?
Já
-Já frændi vinar míns var einmitt í Hagaskóla, hann er ári eldri en þú. Þekkirðu...
Og svo líður öllum betur þegar það kemur í ljós að umræddur frændi var einmitt í bekk með systur fyrrverandi kærasta vinkonu minnar.
En jæja. Ég er líka svona, það er ekki það. Þjáist af "þekkirðu" heilkenninu á háu stigi. Hins vegar gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta byrjar strax í barnæsku. Átti skemmtilegt samtal við um það bil 7 ára gutta sem heilsaði mér að fyrra bragði þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag.
Gutti: Hæ
Ég: Hæ
Gutti: Hvað heitirðu?
Ég: Ég heiti Sólrún
Gutti: Ég þekki þig ekki. En hvaða konu þekkirðu?
Ég: Ég þekki margar konur
Gutti: En hvaða vinkonu áttu?
Ég: Hvaða vinkonu átt þú?
Gutti: Nei þú fyrst!
Ég: Nei þú fyrst!
Gutti: Allt í lagi. Mín vinkona heitir Sigríður. Hvað heitir þín?
Ég: Mín heitir Aldís (litla systir, fyrsta sem mér datt í hug)
Gutti: Hei, ég þekki hana!
Ætli þetta sé í blóðinu? Eða læra börnin bara það sem þau búa við?
Ég hef mikið að segja
Fyrir 10 árum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli