20. nóv. 2003

Þrátt fyrir svakalegar öryggisráðstafanir og mótmæli er (sem betur fer) ekkert "spennandi" að gerast þannig að helst í fréttum í Bretlandi er hvað Bússi og Drollan fá í matinn. Já og svo fréttirnar af undercover blaðamanninum sem vann hjá kóngafólkinu í mánuð og komst að eigin sögn í aðstöðu til að eitra, sprengja, skjóta og ég veit ekki hvað og hvað. Öryggistékkið klikkaði greinilega eitthvað. Reyndar fylgdi sögunni að það hefði nú bara þurft að fletta nafninu hans upp í Google til að komast að því að hann væri blaðamaður. Að sleppa því að gúgla starfsmennina eru auðvitað grundvallarmistök.



Screening tæknin hefur einmitt þróast hjá okkur vinkonunum gegnum árin. Þegar ég var í grunnskóla var spurt: "Ertu búin að hringja í hann (og skella á)?" þegar við vorum skotnar í strák. Í menntaskóla var aðalmálið hvort við værum búnar að rúnta framhjá húsinu hans (og flýja áður en mamman hringdi á lögguna). Núna er auðvitað spurningin: "Ertu búin að gúgla hann?" Ég veit um dæmi þess að dreng hefur verið dömpað vegna gúglunar... ekki vegna óhagstæðra upplýsinga heldur vegna engra upplýsinga. Það þótti grunsamlegt. Við Íslendingar höfum það reyndar gott með Íslendingabók og Þjóðskrá. Alltaf gott að vita hverjir eru þriggja barna feður og náfrændur manns og hverjir ekki...

Engin ummæli: