10. jún. 2009

Gamalt drasl og góð ráð við ástarsorg

Ég á alveg ótrúlega erfitt með að henda hlutum og á það til að safna í kringum mig drasli sem

a)ég nota aldrei og veit jafnvel ekki alveg hvað er en tel mig einhvern tíman mögulega geta haft not fyrir (í þennan flokk falla t.d. ýmis hleðslutæki og snúrur, skrúfur og tölur sem ég veit ekki alveg hvað passa við)

eða

b)ég hef bundist tilfinningaböndum eða er bundið einhverri (mis)óljósri nostalgíu (í þennan flokk falla t.d. gamlir bíómiðar, kvittanir og blaðsneplar af ýmsu tagi).

Skattholið sem ég keypti fyrir fermingarpeningana mína hefur að mestu að geyma alls konar smádrasl sem hefur safnast þar fyrir gegnum árin. Einstöku sinnum ákveð ég að fara í gegnum dótið og henda en enda alltaf með að sökkva í einhverja fortíðarvímu við það að skoða dótið og kemst lítið áfram í tiltektinni. Inn á milli draslsins eru nefnilega algjörir gimsteinar sem mér þykir vænt um.

Í skattholinu eru þrjár stórar skúffur og fjórar pínulitlar. Skoðum nú sýnishorn af innihaldi einnar af smærri skúffunum sem hefur ekki verið opnuð í nokkur ár.

-Inneignarnóta upp á kr. 1.299 í búðinni Oxford Faxafeni síðan í júní 2000.
-Kvittun fyrir úttekt úr hraðbanka 1995 (fer þetta ekki að hafa sögulegt gildi? Var búin að gleyma að úttektarmiðarnir litu svona út).
-Mynd af kanadískum frænda mínum sem mér fannst hrikalega sætur en skammaðist mín fyrir (af því að hann var frændi minn).
-Ómerkt neonarmband líklega af útihátíð eða tónleikum sem myndi sjálfsagt hafa tilfinningalegt gildi ef ég myndi muna hvaðan það kom.
-Blá plastísskeið (sama og að ofan, örugglega úr einhverjum mikilvægum ísbíltúr sem ég man ekki eftir. Hendi henni núna).
-Hálfsköllótt lítil barbídúkka með gallaða fætur sem ég var búin að líma aftur á (þessari átti að henda en var naumlega bjargað á sínum tíma).
- Miði með símanúmeri, en engu nafni. Spurning um að hringja bara?


Gullmolinn í skúffunni eru tvímælalaust ráðleggingar sem yndisleg vinkona mín skrifaði fyrir mig í fyrstu ástarsorginni, sumarið eftir 9. bekk. Verð eiginlega bara að deila þeim hér.

Ráðleggingar fyrir ástarsorg

1. Láta hann sjá eftir því að hafa sagt þér upp með því að vera glöð og sæt og alltaf fjör í kringum þig. Alltaf fullt að gera.
2. Ekki ganga á eftir honum!!! Mjög áríðandi. Be cool.
3. Samt ekki vera vond við hann. Ég meina sko, vertu skemmtileg og góð við hann þegar þú hittir hann.
4. Ef hann svo sýnir þér áhuga og þú vilt eitthvað með hann hafa skalt þú á einn eða annan hátt láta hann via að þú sért ennþá volg fyrir honum. ANNARS EKKI!
5. Ekki liggja heima í ástarsorg og hugsa um fyrri tíma þegar allt var svo gott og yndislegt. Because nothing lasts forever and the future is now.
6. Hafa nóg við tímann að gera, fá áhuga á einhverju. Vera með vinum og láta þér aldrei leiðast.
7. Hætta að hugsa um stráka, þeir eru heimskir, vitlausir og óþroskaðir. Láttu þá eiga sig. Bíddu þar til þeir koma til þín.
8. Njóttu lífsins. Hættu að hafa áhyggjur af fortíðinni því þá nærðu ekki að njóta augnabliksins. Því lífið er núna og ef þú nýtur ekki núna þá nýtur þú ekki lífsins og það er slæmt.
9. Brostu og líttu á björtu hliðarnar.

7 ummæli:

Anna Pála sagði...

ÆÐISLEGAR ástarsorgarráðleggingar! 7 og 8 eru frábærar og allar saman mjög skynsamlegar. Myndi persónulega alls ekki getað farið eftir 2 og 5 þar sem ég er alls ekkert sambandakúl og þarf alltaf svo svakalega að segja fólki hvernig mér líður á ofsalega dramatískan hátt hvort sem það er skynsamlegt eður ei, og svo bara verður maður að fá að velta sér aðeins uppúr ástarsorginni, en kannski 1-2 dagar nóg og svo er það út(s)vælt :-)

Já og Oxford Skeifunni, hvernig búð var það eiginlega?

Skemmtilegt blogg, alveg það sem mig vantaði með morgunkaffinu :-)

Nafnlaus sagði...

hahaha! Ég trúi eiginlega ekki að stelpa í 9. bekk hafi skrifað þetta, þær eru frábærar og mjög "spot on".

Verð því miður að viðurkenna að 1-2 dagar er langt frá því nóg fyrir mig sem velti mér upp úr hinu og þessu í langan tíma. En þó gott að setja sér markmið um að vera alltaf að gera eitthvað skemmtilegt.

kv,
Hildur

P.S. Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að rifja upp bloggið um "A" og "B" (og var líka "C"?) í þessu samhengi...var það ekki allt að gerast þarna í 9. bekk?

Blaðran sagði...

Þessi nostalgía getur nottla verið rosaleg, hef einmitt lent í þessu þegar ég fer í gegnum kassa að helmingurinn fer aftur niður af einhverjum óskiljanlegum (sem samt útpældum og rökstuddum) ástæðum. Læknaðist reyndar aðeins eftir að við systkinin tókum til í óendanlega mikla draslinu á geymsluloftinu hjá mömmu og stjúpa. Slíkt hjálpar klárlega!

Þessar ráðleggingar eru nottla bara snilld þó ég taki undir með stelpunum hér að ofan að ég þarf nokkuð mikið að velta mér uppúr hlutunum enda mikil dramadrotting. Þetta er samt mjög vel gert og heppin þú að eiga svona góða vinkonu!

Anna Pála sagði...

Já jeminn, þetta var svona algjört idealtímaplan, hef sjálf verið a.m.k. tvisvar í um það bil árslangri ástarsorg/-reiði og vælt reglulega og vorkennt mér á því tímabili :-)

Heyrði reyndar svona fullorðinsástarsorgarráð um daginn sem má deila um hvort sé effektívt: "til að komast yfir einn er gott að leggjast undir annan"

Nafnlaus sagði...

yeah that's called rebound...og það má efast um gildi þess. A.m.k. vill okkar kyn nú ekki kannast við að það að vera "rebound girl" sé eitthvað jákvætt.

Fór þó mikið að spá áðan í Charlotte í SATC sem taldi helmingunarleiðina vera ágætt verkfæri í ástarsorg. Held þó að það sé eins og flest annað - aðstæðum bundið

kv,
Hildur

Sólrún sagði...

Vei, takk fyrir kommentin stelpur :)
Oxford í Skeifunni var bara e-r outlet búð held ég, man að ég keypti mér stundum þrönga boli þarna með einhverjum myndum sem mér fannst flottar. Ráðleggingarnar eru bara nokkuð góðar og spot-on tala nú ekki um fyrir þennan aldur. Það reyndist okkur nú samt lífsins ómögulegt að fara eftir þeim, sérstaklega að "hætta að hugsa um stráka" enda hormónarnir flæðandi í allar áttir. Get nú skrifað mörg blogg um gaggódrama og A og B og C ofl., þetta var sko alveg jafn spennandi og O.C. og Beverly Hills mínus allt ríka og fallega fólkið.
Ég þarf eiginleg að skrifa annað blogg til að svara þessum athugasemdum um ástarsorg fullorðinna. Yfir/undir aðferðin held ég að reynist misvel og það er miklu meira til í helmingunarreglunni hennar Charlotte heldur en ég hélt fyrst.

Unknown sagði...

Kannast við þessa söfnunaráráttu. Planið hjá mér var alltaf að einn daginn bý ég til listaverk úr öllum "minningunum" mínum. One day, right...
Þar til sá dagur rennur upp flyt ég draslið með mér milli heimshorna og velti mér einmitt uppúr nostalgíunni reglulega þegar ég "tek til".

Það er greinilega ekki í lagi með mann :)