Fór í kaffi til samstarfskonu minnar eftir vinnu í dag á Selfossi og þegar ég var að keyra þaðan datt mér í hug að það gæti verið gaman að kíkja aðeins til ömmu minnar sem býr á Stokkseyri. Bara 10 mín. akstur frá vinnunni en ég fer allt of sjaldan, á alveg stórkostlega ömmu sem gaman er að koma til, en það er önnur saga. Þar sem þetta er leið sem ég þekki vel fannst mér gaman að taka allt í einu eftir nýjum hlutum og bæjum, enda er ég vanalega frekar utan við mig og ekki alltaf að horfa í kringum mig. Fannst ég upplifa umhverfið einhvern veginn á annan hátt en tengdi það bara við góða skapið og hugsaði með mér að ég ætti nú að horfa oftar á þessa fallegu sveitasælu í kringum mig í stað þess að vera svona mikið í eigin heimi. Svo keyrði ég og keyrði og fannst ég reyndar hafa verið svolítið lengi á leiðinni þarna á tímabili en umferðin gekk reyndar hægt. Bensínljósið var farið að blikka svo ég fór að verða pínu stressuð með hvort ég væri ekki að verða komin. Fannst samt skrýtið að sjá í hvorki Stokkseyri né Eyrarbakka, bara fjöll og sveitabæir svo langt sem augað eygði. Hægt og hægt rann upp fyrir mér ljós að ég væri bara á bandvitlausum vegi, semsagt á leiðinni á Hellu. Fór svo á einhvern míní "ó hvað ég er mikil steik" bömmer á staðnum yfir því hvað ég var fáránlega lengi að fatta þetta en jafnaði mig nú fljótt, verð bara að reyna að sætta mig við það hvað ég er mikill skýjahaus og klaufi. Nema hvað að svo upphófst panikk þar sem mér var ekki að takast að snúa við, sá enga hentuga staði og hægði verulega á mér til að reyna að svipast betur um. Bílalestin varð þá óþolinmóð og pirruðu ökumennirnir fóru að taka framúr sem mest þeir máttu og á meðan gat ég ekki beygt neins staðar og ég var að verða bensínlaus (af einhverjum ástæðum óttast ég mjög að verða bensínlaus, já og að fá stöðumælasektir). En þetta hafðist að lokum og mér tókst að snúa við og taka bensín á Selfó. Þá var hins vegar klukkan orðin svo margt að ég hafði engan tíma til að fara til ömmu og brunaði beint í bæinn. Þannig fór um sjóferð (bílferð?) þá...
1 ummæli:
hmmm..... það gengur bara betur næst ;-)
Skrifa ummæli