Ég er greinilega ekki alveg með sjálfri mér því ég fékk löngun þess að fara út að hlaupa seint í kvöld. Og fór. Eða svona, kannski ekki út að hlaupa. Út að skokka. Hægt. Mjööög hægt. Fannst það meira að segja ekkert svo leiðinlegt þökk sé killer iPod mixinu sem ég gerði fyrir sumarbústaðarferðina síðustu helgi og hefði sungið með Bobbysocks í La det swinge ef ekki hefði verið fyrir allt fólkið sem var í göngutúr í góða veðrinu (fyrir utan það að ég gat varla andað, hvað þá sungið þegar þarna var komið við sögu). Kenni Ólöfu alfarið um þetta sem vildi endilega fara að skokka í Árbænum í kvöld en ég harðneitaði að koma með. Saumaklúbburinn ætlaði semsagt að bæta upp fyrir syndir helgarinnar en við fórum í fyrsta sinn allar saman í bústað. Ég hló svo mikið að ég er með harðsperrur í kinnunum. Held samt að brandararnir séu meira svona "had to be there" fyndnir svo kannski engin ástæða til að fara að telja þá upp hér. Við bjuggum til mojito og strawberry daiquiri, borðuðum kjúklingaspjót og bruschetta, spiluðum Scrabble (með extra stigum fyrir dónaleg orð), Actionary (það er ótrúlega erfitt að leika orðið mistök) og Partý og co (tapaði stórt). Sungum og dönsuðum, settum á okkur maska, fórum á trúnó og svo voru skemmtiatriði og leikir.
Sumarið byrjar vel því þetta var önnur sumarbústaðarferðin í maí, fór með þremur stelpum í bústað um Júróvisjónhelgina. Þetta átti reyndar ekki að vera stelpuferð, við buðum alls 12 strákum að koma með en þrátt fyrir loforð sumra um bikini í pottinum kom allt fyrir ekki svo það var bara fámennt en góðmennt (fákvennt?). Ég kveikti reyndar næstum því í bústaðnum með grillmeistaratöktum mínum. Síðan slógum við Blaðran pottamet með því að vera sex tíma samfleytt í heita pottinum, stóðum bara upp til að ná okkur í mat (sem við tókum með á pottabakkann) og fara á salernið. Við lásum bara, slökuðum á og kjöftuðum og vorum orðnar ansi bleikar og krumpaðar þegar við stóðum upp úr. Er af þessum sökum orðin óvenju brún miðað við árstíma, verst að freknurnar eru orðnar svo stórar sumar að það er eins og ég sé með súkkulaðiklessur á andlitinu, sérstaklega er ein stór við munnvikið sem truflar mig.
Sé samt núna að það er ekki sniðugt að hreyfa sig svona seint á kvöldin, ég er glaðvakandi, klukkan er hálf þrjú og ég þarf að vakna eftir svona sirka þrjá og hálfan tíma. Búin að reyna að drekka epla og kamillute með fíflahunangi sem Unnar vinnufélagi minn bjó til. Bragðast ljómandi vel, alveg eins og alvöru hunang. Skil samt ekki ennþá hvernig hann gat gert þetta án þess að býflugur kæmu nokkuð við sögu og óttast atvinnuleysi í stórum stíl þeirra á meðal. Spurning samt um að reyna að fara upp í rúm og telja kindur. Mér hefur samt aldrei fundist það róandi að telja ímyndaðar kindur, fer alltaf að pæla of mikið í hvernig kindur þetta séu. Ég meina hvernig eru þær á litinn, eru þær jarmandi, eru hrútar og lömb líka, hvar eru þær og hvernig girðing er þetta eiginlega eða er þetta hlið og er erfitt að hoppa yfir...og af hverju eru þær yfirhöfuð að hoppa, er enginn þarna sem getur hleypt þeim í gegn!?
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
4 ummæli:
Ohh..missti ég af dóna-scrabble?
Ég las reyndar fílahunang og skildi ekki neitt i neinu..ekki tad ad eg viti hvernig fíflahunang er..hehe
Miss u :*
HAHAHA, ég hef heldur aldrei fattað þetta rollutrikk en Spanjólar geta sko ALLS EKKI sofnað án kamillutes, hef lent í masshysteriukasti á miðjum Sprengisandi þegar komst upp að birgðirnar væru þrotnar! Þetta hlýtur því að virka eitthvað en kannski bara ef maður hefur "ánetjast" því reglulega, svona svefnrútína.
Ég var einmitt líka andvaka í nótt af því ég asnaðist til að drekka kaffi eftir kvöldmat! GARGGGG geri það sko ekki aftur nema planið sé að vaka fram á nótt! Ýkt pirrandi þegar grislingarnir sofa eins og englamýs og maður er svefnfíkill. Svo fer maður bara að plana líf sitt í detail til sjötugs meðan maður veltir sér hring eftir hring og fær "frábærar" hugmyndir sem reynast svo gjörsamlega ridiculous í dagsbirtu :-)
Já og svo verð ég eiginlega að bæta við að ég er glöð að það er einhver þarna úti sem hlustar líka stundum á "la de svinge" :-)
Já Aldís við þurfum að taka Scrabble næst þegar við hittumst (áttu það til í DK?), þetta gekk nú vel hjá okkur um jólin :) Finnst fílahunang hljóma frekar ógeðslega...
Ég ætti kannski að prófa að ímynda mér útlenskar rollur, þær íslensku eru allt öðruvísi í útliti. Já það er eins gott að maður nær yfirleitt að sofa á frábæru næturhugmyndunum og áttar sig oft á því að þær eru ekki alveg jafn sniðugar daginn eftir...
Verð svo að bæta því við að ég þekki eina sem býr í NY sem lenti í júróvisjónpartýi núna í maí með annarri Bobbysocks píunni!
Skrifa ummæli