15. jún. 2009

Tvífarar #2

Eftir misheppnaða ferð á hina klisjukenndu og ótrúverðugu Ghosts of girlfriends past á föstudagskvöldið skemmti ég mér konunglega á Grease á laugardagskvöldið. Það hjálpaði reyndar ekki með bíómyndina hvað mér finnst Matthew McConaughey alltaf leiðinlegur, alveg sama hversu sætur hann er ber að ofan með Colgate brosið sitt (er hins vegar Söndru Bullock fan sem kemur málinu ekki við nema hvað það eru margir sem þola hana ekki og mér datt það allt í einu í hug). Anyway...já með Grease - Fór einmitt líka á sýninguna fyrir 10 árum síðan þegar Selma lék Sandy en nú var hún að leikstýra. Af leikurunum bar Unnur Ösp af sem Rizzo en annars var ég svosem ekki mikið að pæla í uppfærslunni heldur bara að njóta þess að hlusta og horfa á söng- og dansatriðin.

Ég er ekki-svo-leyndur aðdáandi unglingamynda og -þátta og hef verið síðustu 20 árin, held að ég sé ekkert að fara að vaxa upp úr því á næstunni. Ég tók smá unglinga sci-fi syrpu um daginn og horfði m.a. á nokkra þætti af Kyle XY sem fjalla um unglingsstrák með yfirnáttúrulega hæfileika sem er ekki með nafla... afar dularfullt og spennandi. Nema hvað (og nú er ég loksins að koma að kjarna þessarar bloggfærslu) að ég kannaðist svo við stelpuna sem leikur fóstursystur hans í þáttunum. Fletti henni upp og leikkonan heitir April Matson, sem hringdi svosem engum bjöllum. Þetta truflaði mig samt allan tíman sem ég horfði á þættina þar til það rann loks upp fyrir mér ljós hverri hún líktist - leikkonunni sem leikur Rizzo í Grease myndinni (sem heitir víst Stockard Channing). Fann reyndar ekki alveg nógu góðar tvífaramyndir af þeim þar sem Stockhard er 37 árum eldri en April og ég fann engar almennilegar myndir af henni frá Grease tímabilinu... en þær líta a.m.k. út fyrir að vera mæðgur!













Hmm... þær eru nú ekki jafn líkar og mig minnti nú þegar ég er að setja inn þessar myndir :)


Þótt það hafi verið gaman á Grease þá ræddum við Freyja eftir sýninguna að skilaboðin sem hún sendir eru ekkert æðisleg... saklausa góða stelpan (sem reykir ekki, drekkur ekki og neitar að kela) fær leið á að það sé gert grín að sér, fer í latexbuxur, breytist í foxy gellu sem er til í tuskið, nær í gæjann og verður aðalskvísan í skólanum. Vorum svona að spá í þessu út frá öllum litlu stelpunum sem voru á sýningunni og fannst hún æði, eins og okkur fannst myndin æðisleg þegar við vorum litlar. Svo fannst okkur við vera algjörar kellingar að vera að pæla í þessu. Þvælist allt of mikið fyrir manni þessi gagnrýna hugsun stundum, til dæmis er ég hætt að geta horft á Pretty Woman án þess að hugsa að Richard Gere sé kannski ekki draumaprinsinn heldur bara hundleiðinlegur perri.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

(en hvað ég skemmti mér vel þessa dagana yfir mörgum bloggfærslum sem ég get kommentað á í stað þess að þykjast vinna í sumarhitanum á skrifstofunni).

Stockard Channing er auðvitað bara snilld. Man hvað ég var sár þegar hún var drepin á fyrstu 3 mínútunum í "The First wifes club". Og mér finnst þær furðulega líka.

Hafði hreinlega aldrei spáð í Grease á þennan máta en þetta er kannski rétt hjá ykkur þó að ég geti ekki sagt að þetta hafi haft þessi áhrif á mig (en ég var í sjálfu sér 18 ára síðast). Fann enga þörf fyrir að troða mér í latexbuxur (á þeim tíma leðurbuxur) eða fá mér smók ;)

Verðið þó að muna að hann (drengurinn) var líka tilbúinn að breyta sér í non-smoker bla bla bla en var auðvitað bara ekki nægilega staðfastur þegar hún (stúlkan) mætti öll púandi á svæðið tilbúin í tuskið í aftursætinu.

kv,
Hildur

Þóra Marteins sagði...

Hún er samt alveg eins og Stockhard Channing var á sínum tíma. Þú hefðir auðvitað átt að setja myndir af henni þegar hún var ung :)