27. feb. 2009

Buxur, bætur, bollur og búningar

Venjulegar buxur heita á dönsku bara bukser. Svo eru til underbukser og overbukser. Mjög einfalt. Við notum orðið nærbuxur (sem mér finnst dálítið töff orð) en svo nota margir um ytri buxur orðið (eða orðleysuna) utanyfirbuxur. Af hverju heita þær ekki bara...fjærbuxur?

Ef þetta er það eina sem ég get bloggað um þá er spurning um að hafa bloggin kannski færri og innihaldsríkari...

Emm há (eða svona næstum því, ein Verslómær) stelpukvöld í gær þar sem við kjöftuðum fram yfir miðnætti. Umræðuefnin voru alvarlegri heldur en oft áður, en samt slúðrað og hlegið í bland við spjall um verðbætur, atvinnuleysisbætur, íbúðalán, námslán, krabbamein, ör og fæðingarbletti. Drög voru lögð að undirbúningi árshátíðar þar sem verður valið nafn á hópinn úr innsendum hugmyndum og skipað í nefndir. Tek það fram að við erum sex talsins.

Sleppti því að halda upp á öskudaginn en hélt á móti tvisvar upp á bolludaginn, bakaði aftur brauðbollur í kvöld, að þessu sinni hvítlauksbollur (átti akkúrat í aðra uppskrift síðan á sunnudaginn). Hefði samt alveg viljað fara í búning enda á ég margar skemmtilegar minningar af öskudeginum forðum daga. Ég átti (og á) frábæra frænku sem kunni leikhúsförðun og það urðu til ótrúlega flott gervi í hennar höndum. Stundum bjó hún til heitt ógeðisgums sem var hægt að nota í flakandi sár, skurði, vörtur og ýmis önnur líkamslýti. Var til dæmis brjálæðislega flottur uppvakningur þegar ég var 10 ára, með orma að skríða út úr auga sem var komið á hlið. Á unglingsárunum var þetta hins vegar erfiðara. Fannst ógeðisförðunin ennþá kúl en vildi samt vera sæt (prinsessa, engill, kisa). Man ekki hverjum datt lausnin í hug en það endaði að minnsta kosti með því að ég fór á grímuball sem svaka sixties pæja með túberað hár í veggfóðurskjól... en með brunasár yfir helminginn af andliti og líkama :)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

:)