Laugardagurinn hófst á hádegismat í Garðinum á Klapparstíg með vinkonu minni þar sem við fengum grænan og góðan hádegisverð á kreppuvænu verði. Við ræddum hvort það væri gott viðmið að samþykkja bara vinabeiðnir á feisbúkk frá þeim sem maður héldi að myndu mæta í jarðarförina til manns... og síðan hvort það væri ekki betra viðmið að eiga bara vini sem maður myndi sjálfur mæta í jarðarför til, þar sem það getur verið erfitt að segja til um hug annarra í þessum málum. Þá hófust umræður um hvenær er viðeigandi að mæta í jarðarfarir og hvenær ekki en á þessu stigi máls voru aðrir gestir litla kaffihússins farnir að líta okkur hornauga og orðið undarlega hljótt á hinum borðunum.
Laugardagskvöldinu var svo eytt að mestu leyti í stofunni hjá Kormáki og Skildi í góðum félagsskap. Okkur til háborinnar skammar voru allir viðstaddir karlmenn hlutgerðir með vali á bestu bitunum úr kjötborðinu í Topp Fimm leiknum.
Fór í sunnudagssund og naut þess að láta fara vel um mig í heita pottinum, þótt endalausa parakeleríið væri farið að trufla mig svolítið undir lokin. Annars heyrði ég sanna sögu af frá vini mínum, þar sem var farið að hitna í kolunum hjá ungu pari sundkeleríi. Þetta var leyndur draumur hjá þeim að ganga alla leið í sundi svo þau fundu sér afvikinn og mannlausan stað í sudlauginni og gengu úr skugga um að engar myndavélar sæju til þeirra. Nema hvað, það vildi þannig til að þetta var sundlaug með áfastri líkamsræktarstöð - og það var heill spinning hópur sem fylgdist með á hjólunum gegnum skyggt gler. Ástfangna parið fékk semsagt aaaðeins fleiri áhorfendur en til stóð.
Síðan var það tilraunabakstur í tilefni bolludagsins á morgun þar sem ég blandaði saman nokkrum uppskriftum að brauðbollum. Bakaði bollur með kotasælu, gráðosti, valhnetukjörnum og fræblöndu og varð ótrúlega stolt þegar þær heppnuðust og voru bara mjög góðar á bragðið. Hef ekki bakað bollur (að minnsta kosti ekki ein) síðan í heimilisfræði í 12 ára bekk að ég held. Velti því nú fyrir mér hvort ég sé ekki jafn misheppnuð í matargerð og ég hef talið mér trú um.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
1 ummæli:
Persónulega tel ég að ef kjötið vissi af leiknum þá yrði það frekar upp með sér :D
Þeir myndu a.m.k. vita þá að verið væri að spá í þá.
Þakka aftur kærlega fyrir góða samveru. Sunnudagurinn var því miður ekki jafn góður og þinn enda langt síðan ég fór út á lífið.
kv,
Hildur
Skrifa ummæli