Ég hélt dagbók svona öðru hvoru á unglingsárunum og á tvær þéttskrifaðar bækur sem ég velkist ennþá í vafa um hvort ég eigi að geyma eða brenna. Hélt alltaf að ég myndi vilja sýna einhverjum þetta þegar ég yrði eldri og þetta væri skemmtileg heimild, en langflestar færslurnar eru pínlega persónulegar og ég roðna og blána þegar ég les það sem ég skrifaði þótt það séu komin rúm 10 ár frá síðustu færslu. Það er ekki mikið skrifað um stað og stund heldur er þetta endalaust tilfinningadrama og flækjur unglingsstúlku - sem gæti vissulega verið skemmtilegt en ég fæ ennþá hnút í magann þegar ég les þetta. Þarf kannski að gefa þessu svona 20 ár í viðbót þangað til ég fer að hlæja að þessu.
Mér var á tímabili líka mikið í mun að ég, sem fullorðin, myndi muna eftir því hvernig það var að vera unglingur. Ég sendi líka sjálfri mér skilaboð og ítreka það í dagbókina að ég ætti ekki að byrja að reykja til dæmis, sem ég hef vissulega staðið við. Ég held reyndar að ég muni það (að minnsta kosti ennþá) ágætlega hvernig það var að vera unglingur og tel mig hafa varðveitt barnið í sjálfri mér bara nokkuð vel (stundum allt of vel).
Hér kemur smá pínlegt brot úr dagbókinni, 16. janúar 1993. Nöfnum hefur verið breytt :)
"Kæra dagbók. Er hægt að vera svo hrifin af einhverjum að maður verði alveg stjarfur þegar maður sér einhvern með sömu hárgreiðslu og hann? Auðvitað er ég að meina X. Ég er samt ekki ástfangin ef þú heldur það, ég verð að kynnast honum betur... Ég vorkenni svo A, kærustunni hans B sem er með mér í skóla. A er nefnilega hrifinn af C sem er góð vinkona A og C er örlítið hrifin af B en hún vill auðvitað ekki særa A. B er alltaf utan í öðrum stelpum og A gerir bara ekki neitt. Annað hvort vill hún ekki missa B sem er ógeðslega ljótur (mín persónulega skoðun), eða hún veit að hún er ekki nógu sæt til að byrja með neinum öðrum. Æ ég get ekkert sagt, ég hef ekki byrjað með strák, hvað þá farið í sleik. Ekki svo að mig langi ekki til þess. Strákarnir eru annað hvort of feimnir eða ég of ljót. Nema Y. Hann settist hjá mér á ballinu og fór að tala við mig. Það var æði. En ég vildi að ég þekkti X meira..."
Sakna þess stundum að vera unglingur því mér finnst þeir svo skemmtilegir upp til hópa, en er á hinn bóginn dauðfegin að þetta tímabil sé búið. Verð samt að segja að stundum finnst mér fullorðinsárin ekkert vera minni tilfinningarússíbani. Það er kannski ekki jafn mikið drama dags daglega og maður er sem betur fer ekki jafn yfirborðskenndur. En þrátt fyrir fullorðinsstreituvalda eins og skúringar og skattaskýrslur eru áhyggjurnar af því að vera ekki nógu sæt og að enginn sé skotinn í manni ekki langt undan...
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
4 ummæli:
....eða hún veit að hún er ekki nógu sæt til að byrja með neinum öðrum.....
hahahahahaha :D
Já ég veit, skammast mín þvílíkt núna fyrir að hafa hugsað/skrifað þetta! Þarna var goggunarröðin auðvitað bara Hot Or Not og ég gerði ráð fyrir því að það væri ekki hægt að Byrja Með Strák nema að vera Geðveikt Sæt. Þessi stelpa var bara ósköp venjuleg sæt stelpa eins og við hinar - og þá fannst okkur ósanngjarnt að hún væri með kærasta en ekki við ...úff... the twisted logic of teenagers.
Frábær dagbókarfærsla, "með sömu hárgreiðslu" kommentið algjört æði!
Á líka svona bók síðan var fjórtán og fór til Köben með félagsmiðstöðinni minni og græt úr hlátri yfir henni, t.d. "sáum rosalega sætan strák á Strikinu og ELTUM hann í hálftíma!" hahaha, og við vorum örugglega 10 saman :-)
Ég myndi svo aldrei í lífinu vilja vera yngri en 25 og helst ekki mínútu yngri en ég er akkurat núna.
Hehehehe þetta er algjör snilld :-D
Það fylgdu svo margar þjáningar því að vera unglingur ég á örugglega svipaða dagbókarfærslu einhversstaðar...eða hef a.m.k hugsað þetta sama ;)
Skrifa ummæli