3. des. 2007
2. des. 2007
Fyrsti í aðventu
27. nóv. 2007
Dagurinn og vegurinn
Helgin var mjög ljúf og vikan lítur vel út. Ég á ótrúlega skemmtilegar vinkonur. Fimmtudagskvöld var saumaklúbbur. Föstudagskvöld var út að borða á Vegamótum með æskuvinkonum og svo rauðvínskvöld við arineld í heimahúsi. Laugardagur var kaffihús með sálfræðivinkonum og svo trúbador/danskvöld með kennslufræðivinkonum. Sunnudagur var náttfatapartý með sjálfri mér og Little Britain. Mánudagur var kaffihús með gamalli MH vinkonu. Í dag er svo hlaða batteríin kvöld (leikfimi og ís, góð blanda), á morgun eru tónleikar... og svona heldur þetta áfram :)
Á morgun á mamma afmæli, best að gleyma því ekki. Til hamingju mamma!
Hey já svo er ég byrjuð að vinna og líkar bara vel. Sumt er samt öðruvísi á Selfossi, til dæmis borðar frábæra fólkið á vinnustaðnum mínum piparkökur með osti. En það er kannski eitthvað sem allir gera yfirhöfuð nema ég?
25. okt. 2007
Barnið er með barni!
Þetta verður semsagt viðburðarrík helgi, fyrir utan Krullfæðinguna er ég að fara að útskrifast enn einu sinni (fjórða útskriftin á sex árum) og pabbi líka. Stuð.
Annars getur vel verið að ég taki upp bloggið aftur, það er ágætt að fá smá útrás öðru hvoru en það er líklegt að ég færi mig aftur á gamla bloggið eða fái mér lokað blogg.
Óver and out í bili.
7. maí 2007
Beibís...
Stundum held ég að mæðrum finnist konur skiptast í tvo hópa. Mæður og ekki mæður. Samkvæmt mæðrunum geta ekki-mæðurnar ekki haft skoðun á nokkrum sköpuðum hlut þegar kemur að börnum eða barnauppeldi. Þannig að mæður eiga eftir að láta þessa færslu sem vind um eyru þjóta og segja að þetta breytist allt ef og þegar ég muni eignast börn. So be it.
5. maí 2007
Gleði gleði gleði, gleði líf mitt er...
3. maí 2007
Deiling
Það er hægt að deila ýmsu með öðru fólki, bæði efnislegu og óefnislegu. Stundum deilir maður hugsunum um sínar innstu þrár og leyndardóma. Stundum deilir maður ómerkilegum staðreyndum. Stundum deilir maður augnablikum.
Ég var að vinna lengi í Sumarhöllinni í nótt við að slá inn gögn. Hafði verið frekar eirðarlaus um daginn en ágætlega einbeitt þegar leið á kvöldið þannig að ákvað að nýta tímann.
Á leiðinni heim sá ég glitta í tunglið. Sem var allt í einu ekki venjulegt tungl. Það var svo ótrúlega fallegt og sérstakt, gyllt á litinn og risastórt. Glóandi hnöttur sem leit út fyrir að vera að falla beint ofan í fangið á mér.
Ég fór heim og út á svalir og starði stórum augum þegjandi á tunglið í langan tíma. Alveg þangað til það fór aftur bak við ský. Reyndi að taka myndir en tókst ekki að fanga sjónina á neinn hátt, hvað þá tilfinninguna.
Þótt flestum finnist kannski það að sjá tunglið ómerkilegt og hversdagslegt þá langaði mig svo að deila þessu með einhverjum. Hlaupa inn í rúm, vekja einhvern og segja: Sjáðu hvað tunglið er fallegt í kvöld.
Ég hefði kannski getað hringt í einhvern. En hver kann að meta að láta hringja í sig um miðja nótt í miðri viku til að láta segja sér hvað tunglið er fallegt? Ég á reyndar yndislega vini þannig að þeir myndu líklega fyrirgefa mér það. En ég ákvað samt sem áður að sleppa því - svona til að þeir missi ekki alveg trú á mér sem tilvonandi sálfræðingi...
Systir mín frábæra skrifaði einu sinni pælingu um kosti og galla þess að búa einn. Mér finnst versti ókosturinn vera sá að það er enginn til að deila með þessum ómerkilegu en samt merkilegu augnablikum.
Á móti kemur að það er meira súkkulaði fyrir mig eina :)
1. maí 2007
Kósíheit í kofanum
Sumarhöllin er kofi á bílastæði á horninu á Hjarðarhaga og Suðurgötu en leigubílstjórar og pizzasendlar eiga samt í stökustu vandræðum með að finna hann. En af því að ég eyði, grínlaust, yfirleitt minnst 12 tímum á dag hérna er ég búin að reyna að gera heimilislegt. Er að átta mig á því að ég hef kannski gengið aðeins of langt í því. Stelpurnar sem deila með mér herbergi gera að minnsta kosti mikið grín að þessu. Ég er með til umráða tvo fermetra þar sem eru fyrir skrifborð og stóll. Á þessu svæði er ég með í augnablikinu:
Tvo lampa (einn skrifborðs og einn með rauðu ljósi), græna ljósaseríu, nuddtæki, væmna bangsamynd í ramma, kort af heiminum, vasa með gerviblómum, tvo seríóspakka, eggjaklukku, Fréttablaðið, Blaðið, 26 hljómsveitarpóstkort, sparibol, módel af heila, geisladiska, dagbók, sjal, kerti, bolla, bollasúpupakka, þrjár gerðir af tei, bodyspray, bingókúlur, eyrnatappa, tvo USB lykla, strepsils, skæri, yddara, gatara, pennaveski, bókamerki, garfield límmiða, tissjúpakka, síma, tösku með sunddóti, tvo poka fulla af tómum flöskum, poka með kexi, djús, sódavatni og vítamínum, inniskó, gólfmottu, tvær möppur fullar af greinum, skólatösku, aukaskó, flísteppi, epli, appelsínu, líter af af pepsi max, bjór, plastglas og glerglas, síma, plakat af John Travolta, plakat af Jim Morrison, plakat af ljótum kalli með súkkulaði fyrir typpinu, kennaratyggjó, venjulegt tyggjó, eyrnalokk (hinn týndist), þrjár krónur, penna, fullt af lausum blöðum, síma og tölvu.
Þetta er fyrir utan það sem ég er með í hillunum (bækur, Magic birgðir, plastglös/diska, jóladót ofl.) og í ísskápnum.
Ef ég væri með rúm og tannbursta gæti ég búið hérna.
26. apr. 2007
Ritgerðarskrif...
26. mar. 2007
Þekkirðu...
- Hvaða árgerð ertu?
1980
- Jahá...og í hvaða skóla varstu?
MH
-Hmmm... nú... já ég þekki svo fáa þaðan... en í hvaða grunnskóla?
Hagaskóla
-Já ertu úr Vesturbænum?
Já
-Já frændi vinar míns var einmitt í Hagaskóla, hann er ári eldri en þú. Þekkirðu...
Og svo líður öllum betur þegar það kemur í ljós að umræddur frændi var einmitt í bekk með systur fyrrverandi kærasta vinkonu minnar.
En jæja. Ég er líka svona, það er ekki það. Þjáist af "þekkirðu" heilkenninu á háu stigi. Hins vegar gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta byrjar strax í barnæsku. Átti skemmtilegt samtal við um það bil 7 ára gutta sem heilsaði mér að fyrra bragði þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag.
Gutti: Hæ
Ég: Hæ
Gutti: Hvað heitirðu?
Ég: Ég heiti Sólrún
Gutti: Ég þekki þig ekki. En hvaða konu þekkirðu?
Ég: Ég þekki margar konur
Gutti: En hvaða vinkonu áttu?
Ég: Hvaða vinkonu átt þú?
Gutti: Nei þú fyrst!
Ég: Nei þú fyrst!
Gutti: Allt í lagi. Mín vinkona heitir Sigríður. Hvað heitir þín?
Ég: Mín heitir Aldís (litla systir, fyrsta sem mér datt í hug)
Gutti: Hei, ég þekki hana!
Ætli þetta sé í blóðinu? Eða læra börnin bara það sem þau búa við?
22. mar. 2007
Segðu aaaaaaaa

20. mar. 2007
Úti að aka
Þið vitið. Þegar mann langar bara að leggjast undir feld. Sem er sjaldnast möguleiki í stöðunni á svona dögum.
En jæja. Það var nú eitthvað farið að hýrna yfir mér þegar ég fór á námskeið í kvöld. Klukkan 22 var ég að fara heim, labbandi eins og venjulega, enda stutt að fara. Afþakkaði meira að segja far. Fattaði svo að ég var ekki með vettlinga og húfu eins og vanalega og fannst leiðin heldur löng allt í einu í hálkunni. Það var kalt og ég var þreytt og pirruð, með níðþunga tösku. Var þess vegna hrikalega fegin að sjá loksins í útidyrahurðina. Hélt utan um lyklana í vasanum síðustu metrana og umlaði "alveg að koma, alveg að koma".
Nema hvað þegar ég tek lyklana upp úr vasanum þá sé ég að þetta eru bíllyklarnir sem ég held á. Því ég kom víst á bíl á námskeiðið. Og hafði einmitt geymt húfuna og vettlingana í bílnum.
En eftir "oohhh"-ið þá var bara fínt að fá sér kvöldgöngu.
12. mar. 2007
Hitt og þetta
Frelsarinn sjálfur birtist mér í formi tannlæknis um helgina. Hann ætlar að fjarlægja harðjaxlinn vin minn strax á föstudaginn kemur. Þannig að senn verður komið að kveðjustund. Ætli næsti jaxl við hliðina á eigi nokkuð eftir að sakna litla bró, hugsa að hann verði bara plássinu feginn.
Sá nokkra flissandi útlendinga stilla sér upp fyrir framan búð á Laugaveginum um helgina. Var að velta fyrir mér hvaða uppstilling væri svona spennandi þegar ég áttaði mig á að það var sennilega húsnúmerið sem heillaði. Það var nefnilega skrifað með bókstöfum og stóð skýrt og greininlega LAUGAVEGUR SEX.
9. mar. 2007
Home sweet home
En jæja, ferðasagan. Hún bíður kannski bara betri tíma. Get eiginlega ekki birt myndir á blogginu því brúðurin er með persónuverndarissjú. Sem ég skil svo sem vel. En það var ógó gaman. Og ég datt ekki á leiðinni inn kirkjugólfið. Og ég drakk kampavín í limmó. Og brúðhjónin fóru með okkur á pöbbinn eftir brúðkaupið í uppáklædd. Og New York er æði pæði.
27. feb. 2007
Lasin :(
26. feb. 2007
Ég hjarta New York

25. feb. 2007
Hunk-o-mania

22. feb. 2007
Stór dagur á morgun
Svo liggur leiðin líka loks til Nýju Jórvíkur á morgun. Allt að gerast!
20. feb. 2007
19. feb. 2007
Gleðilegan bolludag!
Vorkenni nú mjónunum pínulítið að hafa ekki sér dag fyrir sig.
Knús,
Solla súkkulaðibolla og Rúsína rjómabolla
18. feb. 2007
American Wedding
Eitt af því sem ég hef komist að er að ég verð að af-kaldhæðnast snarlega. Eða kannski bara að af-íslenskast? Ég er ekkert sérstaklega kaldhæðin að eðlisfari en ég segi auðvitað hluti sem ég meina ekki í bókstaflegri merkingu. Það er kallað að grínast, hélt ég. En þetta afbrigði gamansemi er víst minna þekkt þarna í Bandaríkjunum.
Vegna brúðkaupsins hafa farið nokkrir tölvupóstar milli mín og brúðarinnar tilvonandi þar sem húmorinn hefur greinilega verið stöðvaður á landamærunum. Ég sagði henni til að mynda að ég vissi ekki alveg hvernig svona brúðkaup færu fram. Sagðist ætla að horfa á nokkrar bíómyndir til undirbúnings; Wedding Singer, Four Weddings and a Funeral, Runaway Bride...
Ég fékk svar um að ég gæti svosem alveg horft á þessar myndir en það væri ólíklegt að þær myndu endurspegla tilvonandi brúðkaup. Og að það væri alveg á hreinu að hún hygðist ekki yfirgefa mann sinn við altarið.
Í næsta pósti spurði ég hana hvort hún ætlaði ekki að nýta síðustu daga sína sem einhleyp kona vel. Það féll heldur ekki í góðan jarðveg. Svarið var á þá leið að hún liti ekki á sig sem einhleypa konu og hefði ekki áhuga á drykkju, dópi eða frjálsum ástum fyrir brúðkaupið. Hún þakkaði mér reyndar fyrir ábendinguna og sagðist ætla að íhuga að fara í jógatíma hjá karlkyns kennara. Það gæti kannski komið í staðinn fyrir framhjáhaldið sem ég var að ýja að.
Og nú er svo komið að ég er hrædd um að verða rekin úr brúðkaupinu. Þannig að öllum tölvupóstsamskiptum hefur verið snarlega hætt. Í brúðkaupinu ætla ég síðan að reyna að fara eftir þeim einkunnarorðum sem Vita Andersen rithöfundur skrifaði um; Haltu kjafti og vertu sæt.
9. feb. 2007
Föstudagur
Ég fæ sem betur fer að vera í sæmilega klæðilegum kjól í Ameríkubrúðkaupinu tilvonandi en ekki einum af þessum.
Góða helgi :o)
27. jan. 2007
Smá misskilningur

26. jan. 2007
Aftur til framtíðar
23. jan. 2007
Bleikar nærbuxur
22. jan. 2007
Tæknivædd
21. jan. 2007
Nostalgía
Í janúar 1996 var ég nefnilega á sama stað að frumsýna Animal Farm með leikfélagi MH. Þetta var margra mánaða ferli og rosaleg vinna og undirbúningur sem fór í þetta. Fyrir utan leikinn sjálfan voru það söngæfingarnar og dansæfingarnar og búningagerðin og ég veit ekki hvað og hvað. Ég lék kind, sagði eina eða tvær línur minnir mig, fyrir utan að hrópa í sífellu"fjórfætt gott, tvífætt vont" (sem breyttist síðan í "fjórfætt vont, tvífætt gott" eins og þeir sem þekkja söguna vita).
Svo var það frumsýningarpartýið og spennufallið og dansinn (man sérstaklega eftir Dancing Queen og Pulp Fiction tónlistinni) og ekki má gleyma daðrinu. Þetta var algjör hormónasuðupottur, um það bil þrjátíu unglingar saman allan sólarhringinn í öllum þessum trausts- og snertiæfingum (sem átti víst að heita hópefli). Ég var voða hrifin af einum hundinum, hann var hins vegar hrifin af hænu en sem betur fer var hún hrifin af svíni þannig að kindin fékk koss.
Margir (að minnsta kosti þrír) úr þessum hópi eru nú orðnir atvinnuleikarar og enn fleiri tengjast leikhúsi á einhvern hátt, dansarar, söngvarar, leika í auglýsingum og fleira. Fór að velta því fyrir mér í gær hvort ég hefði misst af köllun minni. Glæstum leikferli mínum lauk nefnilega með kindinni en þar áður tók ég þátt í fjölmörgum sýningum í grunnskóla og gaggó. Mér þykir þetta þó afar ólíklegt, enda kann ég hvorki að leika (lélegur lygari), dansa (kostulegur klaufi), né syngja (takmarkað tónsvið). Svo hef ég ekkert sérstaklega gaman af því að vera í sviðsljósinu heldur vill meira fá að "vera með". Spurning um að finna sér áhugaleikhóp og biðja um að fá að leika tré?