Blóðbankahjúkkan hvíslaði að mér að við deildum afmælisdegi og var að ég held extra mjúkhent við mig vegna þess. Síðan hneyksluðumst við saman á fólki sem veit ekki muninn á sumarsólstöðum og Jónsmessu. Á meðan hún batt skærblátt teygjubindi um olnbogann á mér sagði hún mér að þetta hefði verið erfiður vetur hjá þeim, takmarkað framboð vegna flensu og mikil eftirspurn frá spítalanum. Ég var fegin að hún sleppti öllum samlíkingum tengdum bankahruni.
Í kvöld var síðan bíltúr með Tónskáldinu um draumaeignir í vesturbæ Kópavogs sem Reykjavíkurvesturbæjarmeynni fannst bara furðu sjarmerandi. Bíltúrinn kom í stað kaffihúsaferðar þar sem snyrtiveskið mitt var týnt og tröllum gefið eftir helgina og mér fannst ég ekki í standi til að fara út á meðal fólks. Ekki það að ég fari ekki úr húsi ómáluð, geri það nú oft. En það vita allir að ef maður fer ómálaður og ótilhafður í bæjarferðir, að ekki sé talað um Kringluna eða Ikea, rekst maður óhjákvæmilega á einhvern sem maður vill helst ekki hitta þannig. Þetta kemur að minnsta kosti iðulega fyrir mig, eins og þegar ég skaust úr vinnunni (á sambýli) með klístrað hár og matarslettur á jogginggallanum að kaupa sleif í Ikea og rakst á hraðferð minni gegnum smávörudeildina á gamlan kæró (sem ég hafði ekki séð í mörg ár) sem var hönd í hönd að versla nýtt rúm með nýju elskunni sinni.
En eníveis... þetta var góður bíltúr og Tónskáldið minnti mig meðal annars á að sagan af Pílu Pínu endar í rauninni vel þrátt fyrir að allir muni bara eftir sorglega laginu. Hún minnti mig líka á að kventöskur eiga það til að vera með Mary Poppins eiginleika og sagði mér að leita aftur í töskunni að snyrtiveskinu. Sem ég gerði (í þriðja sinn) þegar ég kom heim og sjá, snyrtiveskið fannst. Allt er gott sem endar vel.
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
6 ummæli:
Gott að sjá þig í gær og gaman að heyra að fleiri en ég eigi svona skemmtilegar töskur sem fela hlutina fyrir manni....
Vá hvað ég kannast við þetta dæmi að hitta fyrrverandi þegar maður lítur illa út, djöfull er það pirrandi!!!
Versta svoleiðis dæmið mitt var tvímælalaust þegar var útgrátin OG glerþunn eftir væmið grenjumyndavídeómaraþon í ljótum bleikum náttbuxum og eldrauðri ofvaxinni mjög unflattering skíðaúlpu, og þurfti einmitt að hitta ávallt fullkomlega útlítandi ex á vídeóleigunni þegar var að skila filmunni, garggg.
Hei, samt er alltaf voðalega skemmtilegt þegar hittist svo á að maður lítur alveg sérstaklega vel út við svoleiðis tækifæri :-) og vondabeljan í mér verður líka EXTRA glöð ef ég lít áberandi betur út en "nýja elskan" :-)
Hehehe... hitti einmitt fyrrverandi kæró í Bónus á laugardaginn, ég var rauð í framan og þrútin af þreytu - hafði þó vit á því að vera í nýju, rauðu flottu kápunni minni og með kinnalit&gloss en þreytan var svo áberandi að ég gat varla komið út úr mér heilli vitrænni setningu. Og hann að kaupa bleyjur á fyrirmyndarbarn númer tvö. Dæs.
Knús
sos
Það gleður mig þó alltaf innst inni að báðir mínu alvöru fyrrverandi hafa sagst sakna mín og hvað ég sé alltaf æðisleg - lööööngu eftir sambandsslit og löööngu eftir að nýju konurnar komu til skjalanna. Ég er bara svona ómöguleg og vandlát. Dæs aftur.
Já elllsku Soffía mín þú ert náttúrulega langbest, svo eru börnin hans ábyggilega óþolandi frekjudollur og konan alltaf drullupirruð og kynköld :-)
Pétur vinur minn vann sér líka inn ævilöng prik hjá mér um daginn. Hann var nefnilega að leigja í ár með eiginkonu síðasta ex, og fullyrti að hún væri svo fáránlega ósexí að hann hefði ekki einu sinni nennt að kíkja á hana í sturtu þó hann hefði haft ótal tækifæri til þess :-)
Fékk hláturskast yfir vídjóleigusögulýsingunni :) Oh já það er dásamlegt þegar það kemur fyrir að maður hittir rétta fólkið á réttum tíma, gerist ekki oft en gerist þó. og óóó já allar konur þurfa að leyfa sinni innri vondubelju að baula endrum og eins :)
Rauð kápa og gloss getur nú bjargað ansi miklu, svo er um að gera að túlka svona aðstæður sér í hag. Hann gæti til dæmis bara hafa haldið að rauð í framan = útitekin og þreytt og fámál = sexy og mysterious. En já elsku sos þetta er auðvitað erfitt fyrir gæjana, þú ert svo mikill heartbreaker!
Skrifa ummæli