25. mar. 2009

Vitlaust númer

Ég er með heimasíma sem er afskaplega lítið notaður þar sem ég skil minn heittelskaða Símon sjaldan við mig eftir að hann endurholdgaðist í kjölfar pepsi-max slyssins í fyrra. Heimasímann nota ég aðallega til að tala við litlu sys í Danmörku sem er með svona íslenskt heimasímanúmer og örfáa aðra. Það kom mér þess vegna á óvart þegar það fór að koma inn holskefla af missed calls í byrjun ársins.

Ég fletti upp númerunum á já.is og það var greinilega hitt og þetta fólk að hringja í mig. Flesta kannaðist ég ekkert við, suma kannaðist ég (mjög) lauslega við og enn aðra kannaðist ég við vegna þess að þeir eru þekktir í þjóðfélaginu. Þetta gerðist dag eftir dag en aldrei náði ég reyndar að svara í símann þar sem ég var í vinnunni. Ég hringdi ekki til baka í öll þessi númer en fannst afar gaman að vera svona gífurlega vinsæl, þrátt fyrir að ég hafi nú fljótlega áttað mig á að ekki væri allt með felldu.

Gúglaði heimasímanúmerið mitt og þá kom í ljós að á vefsíðunni fyrir Prisma, nýja diplómanámið á Bifröst, er fólki bent á að hringja í númerið mitt fyrir frekari upplýsingar. Ég hafði samband við þá og benti þeim á þetta og allt í góðu með það. Nú í gær voru nokkur missed calls á símanum aftur og sjá, þeir eru aftur farnir að bjóða upp á þetta nám. Og ekki búnir að breyta númerinu á síðunni. Velti því fyrir mér hvernig aðsóknin hafi verið hjá þeim... nei nei þeir voru með annað númer þarna... en eníveis, ef ykkur finnst þetta nám spennandi og langar að vita meira um það.... ekki hringja í mig!

Þetta minnir mig á það að þegar ég bjó í foreldrahúsum var númerið okkar afskaplega líkt númerinu hjá sólbaðsstofunni Sól og Sælu. Fólk muldraði oft í símann og ég hélt oft að það væri að spyrja eftir mér og/eða mömmu (sem heitir Særún) og var búin að taka niður pöntun í ljósatíma áður en ég vissi af. Eða þegar maður hringdi í Pizza 67 forðum daga, við unglingarnir rugluðumst alltaf (eins og mjög margir aðrir) á þessum sextíuogsjöum (er ekki einu sinni viss um að það hafi verið neitt 67 í númerinu á þessum tíma eins og við héldum). Það var því oft hringt í eitthvað aumingja fólk sem var orðið verulega pirrað á því að vera vakið á nóttunni við óskir um pepp og svepp.

Þar sem það er svo mikið stuð í kommentakerfinu þessa dagana bið ég lesendur endilega að deila vitlaust-númer sögum :)

9 ummæli:

Anna Pála sagði...

Jamm, gemsanúmerið mitt er það sama og "Blöðrufólkið: Blöðruskreytingar og andlitsmálun" og hefur nokkrum sinnum verið hringt í mig fyrir barnaafmæli, takk fyrir að minna mig með þessu bloggi á að laga þetta LOKSINS :-)

Svo erum við þrjár systurnar og tölum allar eins í síma og nenntum stundum ekkert að sækja þá sem símtalinu var beint að heldur villtum á okkur heimildum og spjölluðum bara smá við vinkonur/kærasta, sem gekk langoftast þangað til við létum sjálfar vita um ruglinginn :-)

Aldís Rún sagði...

Ég man auðvitað eftir þessu heima..hehe

En það fór hið undarlegasta fólk að hringja í Sigurjón hérna um árið og eftir að hafa alloft sagt að þessi væri ekki við, og að þetta væri vitlaust númer, komumst við að því að númerið hans hafi verið gefið upp á boðskorti í barnaafmæli. Svo var fólk ýmist að tilkynna komu eða forföll næstu tvær vikurnar...gaman, gaman

Ásdís sagði...

Ég á svooo margar svona númerasögur frá USA.
Helst má þó nefna að ég var svo heppin að fá gamla númerið hans Ronalds í NY hér um árið. Það var hringt á öllum tímum og stundum oft á dag í næstum því heilt ár..... Svo hringdi meira að segja hann Ronald sjálfur í mig og baðst afsökunar á þessu ónæði og vonaði að þetta hætti bráðum....samt hélt þetta áfram, alveg þangað til við fluttum heim.

Nafnlaus sagði...

haha...ég hef einmitt lent í sömu vandræðum með pizzuna sem og leigubíla. Það er ég hringi óvart í Hreyfil þegar ég ætla að panta hjá Dominos og öfugt.

Man nú ekki alveg allar aðstæðurnar en mjög líklega var áfengi við hönd í flestum tilvikum. Sést hvað auglýsingaherferðir þeirra eru góðar að númerin spretta fram áður en maður ræður við puttana

kv,
Hildur

Nafnlaus sagði...

Hmm ég man engar svona númersögur í bili, en þetta minnir mig á að Hinrik fékk jólakort frá Belgíu sem átti að fara til alnafna hans... eins gott þú minntir okkur á það. Við þurfum að reyna að koma því til rétta viðtakandans fyrir næstu jól ;-)

Nafnlaus sagði...

Gömul bekkjarsystir litlu systur er með símanúmer sem er næstum því eins og símanúmerið hjá ma og pa. Munar einum stafi. Eitt skipti var ég að vinna í Salnum í miðasölu, það var vitlaust að gera og síminn hringdi endalaust. Ég leit niður og sé á númerabirtinum að þetta var mamma sem var að hringja. Svaraði í símann (opinbera síma Salarins) með orðunum 'mamma ég get ekki talað við þig núna' (sagt mjög hratt) og þá var það bara ekkert mamma, heldur þessi ágæta bekkjarsystir litlu systur. Ekkert vandræðalegt neitt....

Harpa sagði...

Ég hringi nú stundum í sjálfa mig þegar ég ætla að hringja á Dominos! Heimanúmerið mitt byrjar líka á 5812...
Skemmtilegast auðvitað ef ég hringi úr gemsanum og fer svo og svara sjálfri mér!

Nafnlaus sagði...

haha..vá hvað þessi athugasemd hér á undan er fyndin!

kv,
Hildur

Sólrún sagði...

Ha ha já þetta eru alveg eðalkomment :) held að það séu margir sem lenda í einhverju svona dæmi. Og já, ég kannast við Hreyfil/Dominos ruglinginn!